Framsóknarflokkurinn

Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að innleiða lög nr. 93/2020 frá 1. janúar 2022 og í hvaða skrefum út kjörtímabilið?

Okkar stefna er að koma lögunum til framkvæmda. Eins og bent var á voru þau samþykkt með 54 samhljóða atkvæðum.  Til þess að málið fái framgang þarf heilbrigðisráðherra samkvæmt lögunum að gefa út reglugerð um nánara fyrirkomulag niðurgreiðslu sálfræðiþjónustunnar, en af því hefur ekki orðið.  Að því loknu, einnig samkvæmt lögunum, þurfa Sjúkratryggingar Íslands að semja við þá sálfræðinga sem veita eiga þjónustuna um greiðslur fyrir hana. Ráðherra heilbrigðismála í næstu ríkisstjórn þarf því að byrja á því að setja reglugerð til að koma málinu áfram.  Framsóknarflokkurinn getur ekki frekar en önnur framboð sagt til um núna hvort að hann muni eiga aðild að ríkisstjórn á næsta kjörtímabili og ekki heldur hvort flokknum verður falið að fara með heilbrigðismál.  Það væri afar óábyrgt að gefa fyrirheit um innleiðingartíma og hraða á þessu stigi málsins, en það er skýrt að við viljum að lögin komist til framkvæmda.

 

Hvað mun innleiðingin taka langan tíma í heild sinni?

Sjá svar við spurningu 1. Þessu getur ekkert framboð svarað efnislega á heiðarlegan hátt.

 

Hve mikið fjármagn þarf til innleiðingarinnar og hvaðan kemur fjármagnið? Verður það viðbót til heilbrigðismála eða þarf að taka það af öðrum fjárlagaliðum í heilbrigðisþjónustu?

Fjármagnsþörf í heild fer eftir samningum sem gerðir verða við sálfræðinga sbr. svari við spurningu 1 og verður ekki ljós fyrr en þeir liggja fyrir. Fjármagnið yrði væntanlega hluti af fjárveitingum til Sjúkratrygginga Íslands en þar var ráðstafað um 94 milljörðum króna til ýmiskonar heilbrigðisþjónustu árið 2019. Það er okkar stefna að um nýtt fjármagn verði að ræða.