Píratar

1. Hvernig ætla Píratar að innleiða lög nr. 93/2020 frá 1. janúar 2022 og í hvaða skrefum út kjörtímabilið?

Hér þarf að uppfæra reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu til samræmis við lögin, sem og að gera ráð fyrir þessu í fjárlögum. Hægt er að nota þann hluta reglugerðarinnar sem snýr að þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga við börn (XI. kafli) sem ákveðna fyrirmynd en við gerum ráð fyrir að tilvísun frá heilsugæslu, heimilislækni, geðlækni eða þverfaglegu greiningarteymi nægi til greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga sem væri þá víðara skilyrði. Hámarksfjöldi skipta gæti verið 10 líkt og hjá börnum. Greiðsluþátttaka gæti verið 90% með afslætti fyrir aldraða og öryrkja líkt og gildir um sérgreinalækningar. Hvort tveggja er hægt að gera í einu skrefi þar sem það er unnið samhliða.

 

2. Hvað mun innleiðingin taka langan tíma í heild sinni?

Reglugerðarbreyting og heimild í fjárlögum geta verið tilbúin strax 1. janúar 2022. Í raun má segja að með því verði innleiðing laganna strax komin, hvað ríkisstjórn varðar. Innleiðing verður þá að öðru leyti smátt og smátt eftir því sem fólk fer að nýta sér þessa heimild. Mögulega þarf síðan að fylgjast með hver eftirspurnin verður og stilla fjárheimildir samkvæmt því en það er betra að byrja ríflega og stilla svo af frekar en að skera við nögl og uppfylla ekki eftirspurn.

 

3. Hve mikið fjármagn þarf til innleiðingarinnar og hvaðan kemur fjármagnið? Verður það viðbót til heilbrigðismála eða þarf að taka það af öðrum fjárlagaliðum í heilbrigðisþjónustu?

Það er erfitt að segja alveg með vissu fyrirfram hvað innleiðingin þarf mikið fjármagn en hér er hægt að miða við nefndarálit velferðarnefndar um frumvarpið sem varð að lögum nr. 93/2020. Þar er vísað í minnisblað frá Sjúkratryggingum Íslands þar sem áætlað er að kostnaður gæti numið á bilinu 875 til 1.750 milljónum króna. Tveir milljarðar til að byrja með gæti því verið eðlilegt viðmið. Í fyrstu verður þetta að vera viðbót, þar sem það mun taka tíma fyrir sparnað á öðrum sviðum (svo sem í kostnaði við lyf og aðra geðheilbrigðisþjónustu) að koma fram, en til lengri tíma litið hlýtur að vera hægt að lækka aðra liði eitthvað á móti þegar áhrifin af betra aðgengi að sálfræðiþjónustu eru farin að segja til sín.