Sjálfstæðisflokkurinn

1 Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að innleiða lög nr. 93/2020 frá 1. janúar 2022 og í hvaða skrefum út kjörtímabilið?

 

Lögin hafa þegar verið innleidd, eða öllu heldur verið samþykkt á Alþingi.

Með frumvarpinu sem samþykkt var síðasta sumar bættist ný grein við lög nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Í greininni segir að „sjúkratryggingar taki til sálfræðimeðferðar og annarrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna sem samið hefur verið um samkvæmt 6. kafla laganna. Í þessu felst að heilbrigðisráðherra er samkvæmt ákvæðinu heimilt að semja við sjúkratryggingar um niðurgreiðslu á slíkri þjónustu. Til þess að tryggja niðurgreidda sálfræðiþjónustu þarf að ganga til samninga við sjálfstætt starfandi sálfræðinga og forgangsraða fjármagni í að niðurgreiða þá þjónustu. Liður í slíkri forgangsröðun getur m.a. falist í að bæta nýtingu fjármagns þvert á heilbrigðiskerfið og hraða stafrænum lausnum í heilbrigðisþjónustu. Málið mun því lenda á borði þess flokks sem fer með ráðuneyti heilbrigðismála á nýju kjörtímabili, en eðli málsins samkvæmt liggur ekki fyrir hvaða flokkur það verður.

Sjálfstæðisflokkurinn telur mikilvægt að nýta krafta sjálfstætt starfandi sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu á sem flestum sviðum og ná samningum þar um. Það er mikið metnaðarmál flokksins að bæta stöðugt heilbrigðisþjónustu hér á landi, ekki síst á sviði geðheilbrigðis. Í því samhengi má nefna að verulegu fjármagni hefur verið veitt til geðheilbrigðismála á undanförnum árum í ráðherratíð Bjarna Benediktssonar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þannig eru t.a.m. í fjárlögum 2021 samtals komnar 850 m.kr. varanlega inn í rammann hjá heilbrigðisráðuneytinu í tengslum við þingsályktun um geðheilbrigðisstefnu. Við þetta munu bætast 100 m.kr. árlega á komandi árum. Sú aukning kom til viðbótar 245 m.kr. sem fóru inn í fjárlögin 2018. Til viðbótar við þessi útgjöld þá fóru 540 m.kr. inn í fjáraukalög á sl. ári í tengslum við verkefnið „Heilsuefling í heimabyggð“ sem átti að standa yfir í tólf mánuði. Síðar kom í ljós að heilbrigðisráðuneytið myndi ekki geta nýtt nema 270 m.kr. af þessari fjárhæð á árinu 2020 en á móti voru settar 540 m.kr. vegna málsins inn í fjárlög 2021. Samtals er því verið að veita 810 m.kr. vegna þessa átaksverkefnis á yfirstandandi ári. Verkefnið nær til fjölda undirverkefna sem hverju og einu er ætlað að stuðla að betri geðrækt og andlegu heilbrigði íbúa landsins. Ætlunin er að vakta markvisst heilbrigðisástandið í þjóðfélaginu á meðan á faraldrinum stendur og efnahags- og félagsleg eftirköst hans vara. Með eflingu heilsugæslunnar verður fagmenntuðu starfsfólki hennar fjölgað, svo sem geðlæknum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum og er gert ráð fyrir rúmlega 20 nýjum stöðugildum í tengslum við átakið.

 

2. Hvað mun innleiðingin taka langan tíma í heild sinni?

 

Eins og áður segir er ljóst að það mun fara eftir því hvaða flokkar mynda ríkisstjórn og hvernig stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar mun hljóða hvernig verkefnum verður raðað og hvernig þau verða fjármögnuð. 

 

3. Hve mikið fjármagn þarf til innleiðingarinnar og hvaðan kemur fjármagnið? Verður það viðbót til heilbrigðismála eða þarf að taka það af öðrum fjárlagaliðum í heilbrigðisþjónustu?“


Í frumvarpinu liggur ekki fyrir kostnaðarmat. Það er að jafnaði í höndum fagráðherra að finna verkefnum pláss innan sinna fjárheimilda. Eins og fyrr segir ræðst það hins vegar að miklu leyti af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar hvernig verkefnum verður raðað og hvernig þau verða fjármögnuð.