Viðreisn

1 Hvernig ætlar Viðreisn að innleiða lög nr. 93/2020 frá 1. janúar 2022 og í hvaða skrefum út kjörtímabilið?

Komist Viðreisn í ríkisstjórn verður það okkar fyrsta verk að leiða samtal milli Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðinga í málaflokknum, með það að markmiði að meta að fullu heildarkostnað úrræðisins og gera raunhæfa áætlun um fjármögnun. Fyrsta skref verði tekið í fjárlögum sem taka gildi 1. janúar 2022 og við gerum ráð fyrir fullri fjármögnun miðað við þörf þjóðarinnar og bolmagn sérfræðinga ári síðar.

 

2. Hvað mun innleiðingin taka langan tíma í heild sinni?

 

Það er alveg ljóst að það mun taka einhvern tíma til að átta sig á raunverulegri þörf og umfangi. En Viðreisn er staðráðin í að klára málið og tryggja að lögunum verði framfylgt. Við áætlum að það sé raunhæft að heildarinnleiðing geti tækið tvö ár, með fyrirvara um upplýsingar sem kunna að koma fram við frekara mat.

 

3. Hve mikið fjármagn þarf til innleiðingarinnar og hvaðan kemur fjármagnið? Verður það viðbót til heilbrigðismála eða þarf að taka það af öðrum fjárlagaliðum í heilbrigðisþjónustu?

 

Ef við tökum dæmi þá eru 2 ma kr. fullnægjandi til að niðurgreiða 10 tíma meðferð um 12.000 kr. fyrir yfir 16.000 manns á ári. Hvort það dugi til er undirorpið frekara mati. Fjármagnið er bein viðbót til heilbrigðismála í upphafi en mun leiða til þess að færri þurfi að neita sér um þessa mikilvægu þjónustu, sem er til þess fallið að auka andlegt heilbrigði þjóðarinnar og líklega draga úr nýgengi örorku. Til samanburðar er heildarkostnaður við örorkulífeyriskerfið í dag yfir 60 ma kr. og spáð fyrir að það verði 107 ma kr. árið 2030. Úrræðið þarf ekki að draga nema lítillega úr nýgengi örorku til að vera fjármagnað að fullu. Í bestu mögulegu sviðsmyndinni mun það spara ríkissjóði fjármagn og leiða á sama tíma til bættra lífsgæða þjóðarinnar.