Fyrir hverja?

Starfsvettvangur sálfræðinga er fjölbreyttur. Þeir vinna meðal annars á sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum og einkareknum stofum, við skóla- og félagsþjónustu sveitarfélaga, í  háskólum og fangelsum.

 

Sálfræðingar aðstoða fólk við að auka lífsgæði og bæta líðan.

 

Sálfræðingar sinna rannsóknum til að auka skilning á hugsun, líðan og hegðun fólks.

 

Starf sálfræðinga felur meðal annars í sér:

  • Mat og greiningu. Sálfræðingar nota réttmætar og áreiðanlegar aðferðir til að meta geðrænan vanda. Þeir nýta meðal annars sálfræðileg mælitæki og spurningar til að skilja og greina stöðu skjólstæðings, styrkleika og veikleika, skipuleggja meðferð og meta árangur meðferðar.
  • Sálfræðimeðferð. Sálfræðimeðferð, eins og t.d. hugræn atferlismeðferð, er á meðal áhrifaríkustu meðferða við geðrænum vanda (eins og þunglyndi og kvíða). Stundum ná einstaklingar bestum árangri með sálfræðimeðferð samhliða annarri meðferð, t.d. lyfjameðferð, en stundum er sálfræðimeðferð áhrifaríkust ein og sér.
  •  

Líkt og á við um líkamlega sjúkdóma þá getur geðrænn vandi verið margvíslegur. Sálfræðingar sérhæfa sig gjarnan í meðferð við ákveðnum vanda eða þjónustu við ákveðinn aldurshóp. Þegar unnið er með geðrænan vanda er ýmist unnið með einstaklingum, börnum og foreldrum, pörum, fjölskyldum eða stærri hópum. Dæmi um vanda en langt í frá tæmandi:

  • Þunglyndi og kvíði
  • Sambandsörðugleikar og fjölskylduvandi
  • Vandamál tengd vinnu, lífstíl eða samskiptum
  • Höfuðáverkar og heilabilun
  • Að takast á við lífshættulega eða langvarandi sjúkdóma (t.d. krabbamein, sykursýki, hjartasjúkdóma)
  • Hegðunar- og námserfiðleikar hjá börnum
  • Neysla vímuefna og misnotkun þeirra (t.d. reykingar, áfengi) 

 

Sálfræðingar sinna einnig þverfaglegu samstarfi við annað heilbrigðisstarfsfólk í tengslum við geðrænan vanda og þarfir í meðferð. Þeir eiga í samstarfi við skóla og vinnustaði til að aðstoða börn og fullorðna við að ná sem bestum árangri og þróa og meta meðferðarúrræði með það að leiðarljósi að fólk fái rétta og árangursríka meðferð.