Staðan í dag

Heilsugæslan verið styrkt sem fyrsti viðkomustaður sjúklinga og hefur sálfræðingum fjölgað úr 33 í 66 á kjörtímabilinu. En þrátt fyrir þá uppbyggingu getur heilsugæslan ekki enn annað eftirspurn og þörf eftir sálfræðiþjónustu. Nú er um 9 mánaða bið eftir viðtali hjá sálfræðingi á öllum heilsugæslustöðvum og eftirspurnin slík að stöðvarnar verða að skammta tímana naumt og forgangsraða stíft. Í erindi Kristbjargar Þórisdóttur, sérfræðings í klínískri sálfræði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á málþingi ÖBÍ þ. 20. apríl sl., kom fram að 37 barna- og fullorðinssálfræðingar eru starfandi á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í 28,4 stöðugildum en viðbótarþörfin er 35,4 stöðugildi.

 

Heimild heimilislækna og sálfræðinga hjá heilsugæslunni til að tilvísa sjúklingum áfram til sjálfstætt starfandi sálfræðinga er ekki til staðar. Geðheilsuteymi eru starfandi á vegum heilsugæslunnar, en þau hafa takmarkað bolmagn til að taka við sjúklingum og hafa vísað frá einstaklingum með þroskaraskanir.

 

Lög nr. 93/2020 hafa ekki verið innleidd með reglugerð og Sjúkratryggingar Íslands hafa hvorki fengið fjármagn né heimild til að semja við sjálfstætt starfandi sálfræðinga. Algengt verð fyrir tíma hjá sálfræðingi er um 20 þúsund krónur, sem einstaklingurinn þarf að greiða úr eigin vasa. Oft er hægt að fá hluta kostnaðar endurgreiddan með styrk úr sjúkrasjóði stéttarfélags viðkomandi. Stór hluti fólks sem þarf á sálfræðiþjónustu að halda er þó ekki í stéttarfélagi, t.d. vegna örorku.

Skert aðgengi að sálfræðiþjónustu bitnar hart á tekjulitlu fólki, “en árið 2015 taldi rúmlega 38% kvenna og 25% karla sig ekki hafa efni á þjónustunni. Þetta tengist menntunarstigi og tekjum, en um 63% kvenna og 42% karla sem lokið hafa grunnmenntun, og 53% kvenna og 36% karla í tekjulægsta hópnum töldu sig ekki hafa efni á slíkri þjónustu”.